Réttaröryggi fatlaðs fólks - málþing í janúar sl.

      

Fimmtudaginn 17. janúar síðastliðinn var haldinn fundur um réttaröryggi fatlaðs fólks á vegum dómstólasýslunnar, réttindavaktar félagsmálaráðuneytisins og mennta- og þróunarseturs lögreglunnar. 

Réttarvörslukerfið var skoðað út frá samningi Sameinuðu þjóðanna en á tiltölulega stuttum tíma hefur orðið grundvallarbreyting á skilningi á fötlun. Gerðar hafa verið breytingar á íslensku lagaumhverfi sem byggja á samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks en lög um réttindagæslu byggja m.a. á honum.


Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra ávarpaði málþingið í upphafi og sagði m.a. frá því að á næstu dögum verður frumvarp lagt fyrir Alþingi um þjónustu táknmálstúlka fyrir dómstólum í einkamálum eins og verið hefur í sakamálum.
Fyrirlesarar voru hon. Kristin Booth Glen fyrrverandi dómari í New York, Kjartan Bjarni Björgvinsson dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, Phil Morris framkvæmdastjóri „Specialist Communication Techniques” og fyrrverandi lögreglumaður frá Manchester, Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari, Elís Kjartansson rannsóknarlögreglumaður, Jón Þorsteinn Sigurðsson réttindagæslumaður og Svavar Kjarrval laganemi.

Kristin Booth Glen ræddi m.a. um félagslega stöðu fatlaðra og mikilvægi þess að hætta að líta á fólk út frá því sem það getur ekki, að allir ættu að njóta virðingar og það væri réttur hvers og eins að taka ákvarðanir er varða eigið líf og fá þær viðurkenndar. Ennfremur ræddi hún um SDM: Support Decision Maker sem er að ryðja sér til rúms í mörgum löndum og snýst um stuðning við fatlaða á þeirra eigin forsendum. Í lokin minnti hún á að fatlaðir væru sérfræðingar vegna reynslu sinnar í eigin fötlun.

 

Kjartan Bjarni Björgvinsson ræddi um samning Sameinuðu þjóðanna út frá íslenskum dómafordæmum og að litið væri til samningsins þegar beita ætti matskenndum heimildum stjórnvalda. Hins vegar hefði samningur SÞ í EES-rétti leitt til rýmkunar á hugtakinu fötlun samanber dóm Evrópudómstólsins í máli C-335/11 frá 11. apríl 2013. Kjartan taldi að almennt væru dómstólar ekki réttur vettvangur til að berjast fyrir réttindum fatlaðra heldur væri nær að beina spjótum að löggjafanum á hverjum tíma.

 

Phil Morris fjallaði um þarfir fatlaðra einstaklinga við skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi. Hann fór yfir hvaða einkenni einhverfir glíma við um ævina og hvað þurfi að hafa í huga þegar verið er að spyrja þá út úr. Mikilvægt væri fyrir starfsmenn réttarkerfisins að átta sig á fötlun hvers einstaklings og að hafa í huga að engir tveir eru eins. Rannsóknir hefðu sýnt að einhverfir væru sjö sinnum líklegri til að lenda í glæpum en þeir sem ekki eru með fötlun.

 

Kolbrún Benediktsdóttir og Elís Kjartansson sögðu frá starfshópi sem útbjó nýjar leiðbeiningar ríkissaksóknara og nýtt verklag lögreglu fyrir börn og fólk í viðkvæmri stöðu. Hópurinn kynnti sér meðal annars hvaða aðferðir nágrannaþjóðir okkar hafa viðhaft en þessi nýja nálgun gerir m.a. ráð fyrir því að heimilt sé að hafa stuðningsaðila við yfirheyrslur. Fatlaðir geti jafnt verið brotamenn og brotaþolar og góður undirbúningur væri mikilvægur, aðkoma sérfræðinga í fötlun viðkomandi aðila skipti máli sem og staðsetning skýrslutöku og umhverfi.

 f.v. Svavar Kjarrval, Kristin Booth Glen, Jón Þorsteinn Sigurðsson og Phil Morris.

Jón Þorsteinn Sigurðsson kynnti hluthver réttindagæslumanna en auk þess að vera fötluðum til aðstoðar í réttarkerfinu koma þeir að málum í daglega lífinu sem varða fatlaða. Réttindagæslumenn eru staðsettir í öllum landsfjórðungum.
Svavar Kjarrval sagði frá fræðslunámskeiði sem ætlað er að innleiða nýja sýn og endurskilgreina þegar viðurkennd réttindi fatlaðra. Námskeiðið er ætlað fyrir lögreglumenn, saksóknara og dómara.

Líflegar pallborðsumræður fjölluðu m.a. um mikilvægi þess að halda utan um tölfræðigögn um hve margir fatlaðir einstaklingar kæmu að réttarkerfinu. Að loknum pallborðsumræðum var Ingibjörg Broddadóttir með samantekt og lagði þar áherslu á að fatlaðir ættu rétt á virðingu og réttlæti. Um eitt hundrað manns sat málþingið.

Innan skamms mun upptaka af málþinginu verða aðgengileg og verður tengill settur á síðu dómstólasýslunnar.

Eyrún Ingadóttir tók saman