Ársskýrsla dómstólasýslunnar, Hæstaréttar Íslands, Landsréttar og héraðsdómstólanna 2018

Dómstólasýslan birtir nú ársskýrslu sína í fyrsta skiptið en í henni er að finna samantekt á helstu verkefnum fyrsta starfsárið ásamt upplýsingum um fjölda dómsmála Hæstaréttar, Landsréttar og héraðsdómstólanna árið 2018.

 

Með nýjum lögum um dómstóla nr. 50/2016, sem tóku gildi 1. janúar 2018, var dómstólasýslan stofnuð sem sjálfstæð stjórnsýslustofnun til að annast og vera í fyrirsvari fyrir sameiginlega stjórnsýslu Hæstaréttar, hins nýstofnaða Landsréttar og héraðsdómstólanna. Þá er dómstólasýslunni ætlað að styrkja stjórnsýslu dómstólanna og um leið stuðla að samræmingu í framkvæmd er varðar innri starfsemi dómstiganna þriggja. Dómstólasýslan gegnir einnig lögbundnu hlutverki við meðferð tillagna til Alþingis um fjárveitingar til dómstólanna sem ætlað er að styrkja stöðu þeirra gagnvart framkvæmdavaldinu.



Helsta breyting laga nr. 50/2016 fólst í því að Landsrétti var komið á fót en við gildistöku þeirra, 1. janúar 2018, var ákveðið að Hæstiréttur skyldi dæma í þeim einkamálum sem til hans var áfrýjað fyrir árslok 2017 en ódæmd sakamál skyldu send Landsrétti til meðferðar.



Fyrsta starfsár Landsréttar einkenndist af mótun á nýju dómstigi en rétt er að hafa í huga að málsmeðferð fyrir Landsrétti er önnur en við Hæstarétt, meðal annars vegna viðbótarsönnunarfærslu með vitnaleiðslum fyrir réttinum.



Heildarmálafjöldi héraðsdómstólanna hefur haldist svipaður á liðnum árum en hér er hægt að nálgast ítarlegri tölfræðiupplýsingar um þá: Tölfræði héraðsdómstólanna



Hér er hægt er að lesa ársskýrslu dómstólasýslunnar, Hæstaréttar, Landsréttar og héraðsdómstólanna með því að smella á myndina.