Héraðsdómur Reykjavíkur opnar dyrnar í tilefni þjóðhátíðardags

Það er ekki oft sem almenningi gefst kostur á að heimsækja dómstóla landsins án þess að eiga þangað erindi. Það gerðist þó á 17. júní síðastliðinn þar sem Héraðsdómur Reykjavíkur var kynntur fyrir gestum og gangandi í tilefni 75 ára afmælis lýðveldisins. Fullt var út úr dyrum enda var margt gert til að kynna dómstólinn fyrir ungum sem öldnum. 

Nemar úr lagadeildum HÍ og HR settu upp sýndarréttarhöld, dómarar og aðstoðarmenn kynntu störf sín auk þess sem gestir skoðuðu húsakynni, mátuðu skikkjur og „tóku í“ hamar sem dómarar nota við þinghöld.

 

Svavar Sigurðsson dómvörður Héraðsdóms Reykjavíkur blés í blöðrur í tilefni þjóðhátíðardagsins og stóð vaktina. 

 

Færri komust að en vildu til að horfa á sýndarréttarhöld sem laganemar við Háskóla Íslands og Háskóla Reykjavíkur settu upp. Tilgangurinn með þeim var fyrst og fremst að fræða almenning um hvernig mál eru rekin fyrir íslenskum dómi. 

 

 

Laganemar úr Háskóla Íslands (t.v) og Háskóla Reykjavíkur (t.h.) sáu um sýndarréttarhöldin fyrir fólk í háskóla lífsins.  

 

 

Almenningi gafst kostur á að máta skikkjur dómara og stilla sér upp til myndatöku í dómsalnum. Bæði ungir og ungir í anda höfðu gaman af. 

 

  

Starfsfólk Héraðsdóms Reykjavíkur stóð vaktina, fræddi fólk um dómstólinn og störf sín. Á fyrstu mynd eru þau Lárentsínus Kristjánsson dómari, Barbara Björnsdóttir dómari og Halla Jónsdóttir rekstrar- og mannauðsstjóri. Á annarri mynd er Þórhildur Líndal aðstoðarmaður dómara við skjá sem var með upplýsingar um dómstólinn og þriðju myndinni er Hildur Briem dómari.