Rafræn samskipti við dómstóla
Haustið 2017 hleypti fyrirrennari dómstólasýslunnar, dómstólaráð, af stað tilraunaverkefninu „rafrænn dómari“ með héraðssaksóknara en það fól í sér að héraðssaksóknari afhenti mál á pdf. formi til Héraðsdóms Reykjavíkur á minnislyklum ásamt frumriti málsgagna. Síðan afhenti dómurinn verjendum minnislykla með gögnum mála en gríðarlegt pappírsmagn sparaðist með þessu.
Á árinu 2018 hófst verkefni á vegum dómsmálaráðuneytis sem hlotið hefur vinnuheitið Réttarvörslugátt, þar sem unnið er að því að stafrænt væða réttarvörslukerfið í heild sinni. Dómsmálaráðuneytið er eigandi verkefnisins og er það unnið í samstarfi við verkefnastofu um stafrænt Ísland í fjármála- og efnahagsráðuneytinu ásamt Ríkislögreglustjóra, lögregluembættunum, héraðssaksóknara, ríkissaksóknara, hérðasdómstóla, dómstólasýsluna, Landsrétt, Hæstarétt og Fangelsismálastofnun. Hluti af þessu ferli er að skila megi gögnum til dómstóla með rafrænum hætti. Hefur nú verið komið á tímabundinni lausn um það hvernig skila megi gögnum rafrænt til dómstóla og síðastliðinn miðvikudag var ákveðið að prufukeyra sendingu gagna í sakamáli frá héraðssaksóknara til Héraðsdóms Reykjavíkur. Lausnin sem nú er unnið með er einungis fyrsta skrefið og í raun tímabundin lausn í því að gera samskipti við dómstóla stafræn en áðurnefnt verkefni um réttarvörslugátt miðar að heildstæðri lausn fyrir réttarvörslukerfið í heild sinni.
Með þessu skrefi hefur skapast farvegur fyrir rafræn samskipti á milli héraðsdóms, ákæruvalds og verjenda. Um leið skapast tækifæri til að feta næstu skref, sem verður m.a. að lögmenn í einkamálum og ágreiningsmálum munu senda dóminum gögn með sama hætti og að tekið verði við áfrýjun mála.
Starfsmenn Héraðsdóms Reykjavíkur ásamt fulltrúum héraðssaksóknara, dómstólasýslunnar og Réttarvörslugáttarinnar.