Nýjar reglur um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstólanna

Hinn 9. júní sl. samþykkti stjórn dómstólasýslunnar reglur um útgáfu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstólanna.  Reglurnar taka gildi 1. október nk. og leysa þá af hólmi gildandi reglur um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðu dómstólanna nr. 3/2019. 

Útgáfa dóma þjónar þeim tilgangi að upplýsa um starfsemi dómstólanna og tryggja rétt almennings í lýðræðislegu samfélagi til aðgangs að upplýsingum um réttarframkvæmd. Þá er útgáfa dóma liður í því að styðja við grundvallarreglu um opinbera málsmeðferð. Útgáfa dóma þarf jafnframt að samræmast stjórnarskrárvörðum rétti til friðhelgi einkalífs og rétti einstaklinga til persónuverndar samkvæmt lagaákvæðum þar um.

Markmið breytinganna er að einfalda og skýra reglur um hvaða dómar skuli gefnir út, í hvaða tilvikum og hvernig gæta skuli nafnleyndar og hvaða upplýsingar skuli nema brott við útgáfu dómsúrlausnar.

Reglunum er líka ætlað að skýra og skerpa eftirlitshlutverk dómstólasýslunnar, en hver og einn dómstóll ber áfram ábyrgð á því að útgáfa dómsúrlausna samræmist reglum dómstólasýslunnar. Í tilkynningu Persónuverndar frá því nú í apríl kom fram að stofnunin teldi sig ekki bæra til að fjalla um vinnslu persónuupplýsinga sem er framkvæmd af dómstólum í tengslum við birtingu dóma á vefsíðum dómstólanna. Þessi breytta afstaða Persónuverndar byggir á nýlegum dómi Evrópudómstólsins í máli nr. C-245/20 þar sem fjallað er um valdmörk persónueftirlitsstofnana gagnvart dómstólunum út frá grundvallarreglum um sjálfstæði dómstólanna.

Helstu breytingar sem felast í reglunum eru:

  • Ríkari áhersla er lögð á að nafnleyndar sé gætt við útgáfu dómsúrlausnar í einkamálum þegar í úrlausn er fjallað um viðkvæm persónuleg málefni og upplýsingar sem viðkvæmar teljast.
  • Skylda til að leita sjónarmiða brotþola þegar leyst er úr því hvort það þjóni hagsmunum brotaþola að nema brott nafn dómfellda í sakamálum.
  • Ítarlegri tilgreining á upplýsingum sem skal nema brott áður en dómsúrlausn er gefin út og hvernig það skuli gert.
  • Reglur um hvert skuli beina kvörtunum og ábendingum vegna útgáfu dómsúrlausna og hvernig úr þeim verði leyst.

Fram að gildistöku reglnanna mun dómstólasýslan vinna að innleiðingu þeirra og undirbúa verklagsreglur fyrir dómstólana í þeim tilgangi að tryggja samræmda framkvæmd.

Reglurnar voru unnar í samráði við forstöðumenn dómstólanna. Þá var leitað umsagnar Blaðamannafélags Íslands, Lögmannafélag Íslands og Ákærendafélagsins.  Blaðamannafélagið og Lögmannafélagið lögðu áherslu á að þörf væri á rýmri aðgangi að dómsúrlausnum fyrir félagsmenn um sérstaka gátt. Dómstólasýslan hyggst í samvinnu við dómstólana kanna möguleika þess að opna slíka gátt og mun leita samráðs við framangreind félög og aðra sem eiga hagsmuna að gæta.

Reglur um birtingu dóma og úrskurða á vefsíðum dómstóla