Áhugaverð málstofa um störf túlka í dómsal

Málstofa, fyrir dómara, aðstoðarmenn þeirra og aðila í félagi löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda um störf túlka í dómsal var nýverið haldin hjá dómstólasýslunni. Málstofan, sem er hluti af símenntunaráætlun dómara, var mjög vel sótt af fólki víða um land en einnig var boðið upp á að að taka þátt í gegnum fjarfundabúnað. Fjallað var um störf túlka frá ólíkum sjónarhornum. Gauti Kristmannsson og Ellen Ingvadóttir frá félagi löggiltra dómtúlka og skjalaþýðenda gerðu grein fyrir hlutverki túlka og eðli túlkavinnu í dómsal frá sjónarhóli túlka og fjölluðu um áskoranir í störfum þeirra. Sigríður Hjaltested dómari fór yfir hlutverk túlka og störf þeirra frá sjónarhóli dómara.

Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir, saksóknari og Geir Gestsson, lögmaður og fulltrúi Lögmannafélagsins tóku að erindum loknum þátt í pallborði með Ellen, Gauta og Sigríði.

Túlkar eru rödd þeirra sem gefa skýrslu

Á málstofunni var fjallað um hversu mikilvægt hlutverk túlka er, ekki síst þegar kemur að skýrslutökum fyrir dómi. Fram kom að túlkurinn er í raun rödd skýrslugjafans og ber mikla ábyrgð á að koma henni til skila. Þörf er á að móta verklag sem snýr að dómtúlkun og vinna saman að lausnum. Einnig var rætt um búnað og aðstöðu sem auðveldar túlkum störfin.

Í máli Gauta og Ellenar kom fram að túlkar eru fámenn stétt hér á landi og getur oft verið vandasamt að finna góðan túlk fyrir þinghald. Samkvæmt lögum skal kalla til löggilta túlka ef nokkur kostur er en það er heimilt að kalla til aðra túlka ef ekki fæst dómtúlkur. Í þessu sambandi kom fram að huga þyrfti að skipulagi menntunar túlka hér á landi enda verður starf túlka sífellt mikilvægara með aukinni alþjóðlegri samvinnu og straumi fólks landa á milli.