Ásgerður Ragnarsdóttir skipuð dómari við Landsrétt

Dómsmálaráðherra hefur ákveðið að gera tillögu til forseta Íslands um skipun Ásgerðar Ragnarsdóttur, setts landsréttardómara, í embætti dómara við Landsrétt frá 21. ágúst 2023.

Ásgerður Ragnarsdóttir lauk embættisprófi í lögfræði 2004 og meistaraprófi í lögum frá Cambridge-háskóla 2008. Hún öðlaðist réttindi til málflutnings í héraði árið 2005 og fyrir Hæstarétti árið 2016.

Að loknu embættisprófi starfaði hún sem lögfræðingur í dóms- og kirkjumálaráðuneytinu og síðan sem aðstoðarmaður dómara við Hæstarétt. Á árunum 2008-2018 var hún lögmaður á lögmannsstofu, þar af var hún einn af eigendum hennar 2012-2018. Í ársbyrjun 2018 var hún skipuð héraðsdómari og hefur gegnt því embætti síðan.

Frá 8. maí 2023 hefur hún verið settur dómari við Landsrétt, en fjórum sinnum áður hafði hún tekið sæti í réttinum sem varadómari við úrlausn einstakra mála. Frá hausti 2021 hefur hún jafnframt verið forseti Félagsdóms.

Af öðrum störfum má nefna að hún átti sæti í kærunefnd útboðsmála 2013-2021, þar af sem formaður síðustu tvö árin, og í stjórn Mannréttindastofnunar Háskóla Íslands 2009-2017. Þá hefur hún sinnt stundakennslu við lagadeild Háskóla Íslands frá árinu 2009, meðal annars í réttarfari, og verið aðjúnkt við deildina frá árinu 2017. Hún hefur samið fræðirit á sviði eignaréttar ásamt öðrum og ritað fjölda fræðigreina um lögfræðileg efni.