Breytingar á réttarfarslöggjöf vegna stafrænnar málsmeðferðar í dómsmálum

Hinn 1. júlí næstkomandi taka gildi breytingar á lögum um meðferð sakamála, lögum um meðferð einkamála og lögum um gjaldþrotaskipti sem miða að því að gera samskipti í réttarvörslukerfinu tæknilega hlutlaus og skapa forsendur til að nýta tæknilausnir í ríkara mæli við meðferð dómsmála. Dómstólasýslunni er í lögunum falið að setja ýmsar reglur um útfærslu rafrænnar/stafrænnar málsmeðferðar, þ.á m. um form og afhendingarmáta dómskjala og rafrænar staðfestingar. Þá er dómstólasýslunni falið að setja leiðbeinandi reglur um fjarþinghöld.

Dómstólasýslan vinnur nú með dómstólum og stofnunum réttarvörslukerfisins að þróun og innleiðingu réttarvörslugáttar sem er verkefni á vegum dómsmálaráðuneytisins. Réttarvörslugáttin á að tengja saman dómstóla og allar stofnanir réttarvörslukerfisins og tryggja rafrænt/stafrænt flæði gagna og upplýsinga á milli þeirra, auk þess þess sem hún á að vera samskiptaleið við ytri aðila svo sem lögmenn. Réttarvörslugáttin verður tekin í notkun í áföngum. Þar til hún kemur að fullu til framkvæmda munu vefgáttir dómstóla áfram vera í notkun og gögn lögð fram á pappír.

Form og afhendingarmáti skjala

Við gildistöku laganna verður stafræn/rafræn málsmeðferð sem fram fer á grundvelli laga um meðferð einkamála og laga um meðferð sakamála jafngild málsmeðferð á pappír. Ekki er því lengur áskilið í lögum að málsmeðferð skuli fara fram á pappír. Dómstólasýslunni er í lögunum falið að setja reglur um form og afhendingarmáta skjala í dómsmálum og ákveða í hvaða málum skjöl verða afhent eingöngu með rafrænum hætti. Þau skref sem tekin verða í þeim efnum ráðast af framvindu þróunar réttarvörslugáttar og innleiðingar hennar hjá dómstólum og stofnunum réttarvörslukerfisins. 

Réttarvörslugáttin hefur nú þegar verið tekin í notkun í málum vegna rannsóknarbeiðna lögreglu. Frá og með 1. júlí nk. skulu öll skjöl í slíkum málum send héraðsdómstólum og Landsrétti á rafrænu formi eingöngu í gegnum réttarvörslugáttina. Stefnt er að því að í byrjun árs 2025 skuli hið sama eiga við í öllum sakamálum sem rekin eru fyrir héraðsdómstólum.

Áfram verður unnið að frekari þróun og innleiðingu réttarvörslugáttarinnar með það að markmiði að skjöl verði að meginstefnu send á rafrænu formi til dómstóla í gegnum réttarvörslugáttina í öllum málaflokkum og á öllum dómstigum. Í málaflokkum sem réttarvörslugáttin tekur ekki til er áfram heimilt að senda skjöl inn með rafrænum hætti en skylt verður að leggja þau fram á pappír.

Rafræn staðfesting

Í lögunum er nú mælt fyrir um að rafræn staðfesting uppfylli áskilnað um áritun, undirritun, staðfestingu eða vottun. Dómstólasýslunni er falið að setja reglur um rafræna staðfestingu. Í reglunum verður þannig kveðið á um hvað teljist fullnægjandi rafræn staðfesting.

Notkun fjarfundabúnaðar

Með lögunum hafa heimildir til notkunar fjarfundabúnaðar verið gerðar varanlegar. Dómari getur samkvæmt lögunum heimilað, að tilteknum skilyrðum uppfylltum, þátttöku í þinghaldi í gegnum fjarfundarbúnað. Dómstólasýslunni er falið að setja leiðbeinandi reglur um fjarþinghöld. Í þeim verður fjallað nánar um hvenær heimilt er að notast við fjarfundarbúnað og við hvaða aðstæður.